Trélistalífi ýtt úr vör
- atli45
- Dec 7, 2024
- 2 min read
Updated: Dec 8, 2024
Bókin mín Trélistalíf kom út í dag í hófi sem Svarfdælasýsl forlag og Félag áhugafólks um tréskurð - FÁT efndu til í vinnustofu Jóns Adolfs Steinólfssonar, myndhöggvara í tré og stein, í Kópavogi.
Afskaplega ljúf og skemmtileg stund. Held mér sé óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið alveg ljómandi góðar og rúmlega það.
Ég settist að þessu verki 1. maí 2024 kl. 11:00, vann stíft í allt sumar og lauk verki til prentvinnslu 15. október.
Veðurlagið í höfuðborginni hentaði mér afar vel. Dag eftir dag, viku eftir viku var rigning og/rok og mun meira varð úr verki en ella. Sólskin og umtalsverður lofthiti hefði truflað og verið til bölvunar. Þarna lýsi ég mínum hagsmunum, aðrir kunna að hafa aðra sögu að segja af Reykjavíkur„sumrinu“.
Í bókinni er fjallað um listamenn í tréskurði, lífs og liðna. Ég heimsótti þá sem eru í fullu fjöri og starfandi sem áhugamenn eða atvinnumenn í greininni, spjallaði við þá og birti viðtöl og myndir af listaverkum þeirra.
Sumir vinna fyrir sér og sínum á allt öðrum sviðum og skera í tré sér til yndisauka og lífsfyllingar í frístundum. Aðrir hafa atvinnu af tréskurði að miklu eða öllu leyti.
Bókin er harðspjalda, 192 blaðsíður, læsileg, myndrík og hinn fallegasti prentgripur, þó ég segi sjálfur frá.
Víðir Árnason, formaður FÁT, lagði á sig að skreppa frá Akureyri (þar sem hann vinnur að verkefni sem húsasmiður), suður í Kópavog til að vera viðstaddur útgáfu bókarinnar. Hann ávarpaði samkomuna - takk fyrir hlý orð, félagi.
Margir lögðu mér lið við útgáfuna. Jóhanna Kristín Hauksdóttir lét mig til að mynda hafa til birtingar margar ljósmyndir af verkum og Kristján Björn Ómarsson tók myndir af munum móður sinnar, Siggu á Grund í Flóa – sem Alþingi kom loksins loksins á heiðurslaunaskrá á dögunum.
Jón Baldvin, bróðir minn, las handrit og prófarkir og Guddli prentsmiður hannaði og braut um, rokkhundurinn Guðmundur Þorsteinsson.
Prentvinnsla í Lettlandi á vegum Prentmiðlunar. Við í Svarfdælasýsli forlagi römbuðum í viðskipti við Prentmiðlun í aðdraganda fyrstu bókarinnar okkar og hreyfum okkur ekki þaðan. Toppfólk, toppþjónusta, toppgæði í prentun.
Síðast en síst nefni ég til sögu Stofnun Wilhelms Beckmanns sem styrkti útgáfuna svo um munaði.
Svarfdælasýsl forlag gaf út, hliðarsjálf okkar systkina frá Jarðbrú í Svarfaðardal.
Ég heiðra útkomu bókarinnar með því að opna sérstakan vef um hana, trelistalif.com. Þar er meira að hafa um Trélistalíf, tíundu bókina sem ég skrifa einn, og um fyrri bækur mínar og forlagsins og annarra útgefenda sem ég hef komið nálægt.
Myndir í útgáfuteitinu í Kópavogi tók Jón Baldvin Halldórsson.
Bókina sel ég sjálfur og hún er líka seld í Bókakaffinu í Ármúla í Reykjavík og á Selfossi.

Comments