Trélist Önnu Lilju
- atli45
- Jan 11
- 2 min read

„Tréskurður Önnu Lilju Jónsdóttur er glæsilegt meistaraverk. Þetta er gríðarleg nákvæmnisvinna sem kallaði á færni og þolgæði, eiginleika sem við vissum að einkenna hana sem myndskera. Óhemju krefjandi að að fást við svona smágert verk dag eftir dag, viku eftir viku en þetta leysti Anna Lilja með miklum sóma.“
Ummælin er höfð eftir Ásmundi Kristjánssyni, gullsmið og vélvirkja, í bókinni minni Trélistalífi sem út kom snemma á jólaföstunni í vetur. Þau hjón, Ásmundur og Hildur Rosenkjær, klæðskeri, kjólameistari og sagnfræðingur, eiga og reka Annríki í Hafnarfirði, fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu vegna íslenskra búninga.
Hér vísar Ásmundur til afar sérstæðs og krefjandi verkefnis Önnu Lilju myndskurðarmeistara þegar hún skar út í tré krækjur og beltissylgjur á einum heildstæðasta faldbúningi sem vitað er að til sé og varðveittur er á safni í Lundúnum. Ásmundur handsmíðaði síðan eða steypti í mótum skartið eftir útskurðarverki Önnu Lilju.


Um Önnu Lilju og fjölbreytt trélistaverk hennar er fjallað í bókinni Trélistalífi.
Hún útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri 1974 og skar síðar út uglu, merki MA, sem árgangurinn hennar afhenti skólanum að gjöf 2014 í tilefni 40 ára stúdentsafmælis síns.

Uglan kúrir sæl á svip í glerskáp í Gamla skóla MA. Karl Frímannsson skólameistari var svo elskulegur að senda mér meðfylgjandi mynd af uglunni og sömuleiðis myndir af stórbrotnu útskurðarverki Önnu Lilju sem hangir uppi á vegg í Gamla skóla. Það var gjöf MA-árgangsins 1979, gefið skólanum í tilefni af 25 ára útskriftarafmæli 2004.
Uglan og útskurðarverkið Ferill MA-stúdentsins eiga það sameiginlegt að Anna Lilja Jónsdóttir skar út hvoru tveggja eftir teikningum Þorbergs Hjalta Jónssonar, bróður síns. Hann er í útskriftarhópnum 1979.
Þau systkin eru sem sagt í senn skaparar listaverkanna og í hópi gefenda þeirra!
Læt hér fylgja með ljósmyndir frá Karli skólameistara, með þökkum og kveðjum.

Nærmyndir af útskurðinum sem myndar heildarverkið
コメント