Sögulegir dýrgripir á Flúðum
- atli45
- Jan 22
- 1 min read

Í stofu íbúðar einnar á Flúðum er sögulega menningarlegt um að litast. Þar er borðstofusett, stofuskápur og skenkur og húsgögnin eiga það sameiginlegt að vera fagurlega útskorin með munstrum og myndum sem Einar Jónsson myndhöggvari hannaði. Ágúst Sigurmundsson myndskeri skar út.
Upphaflegur eigandi húsbúnaðarins var Stefán Helgi Bjarnason, bróðursonur Einars myndhöggvara. Ekki er vitað hver smíðaði húsgögnin en nærtækt er að halda að þar hafi Bjarni Jónsson, faðir Stefáns Helga, komið við sögu. Bjarni var húsgagnasmiður og tréskurðarmaður.
Þórður, sonur Bjarna, eignaðist síðar húsgögnin og eftir hans dag fer nú dóttir hans, Þórey Sigríður Þórðardóttir hæstaréttarlögmaður með forræði dýrgripanna sem frá upphafi hafa verið innan sömu fjölskyldunnar.
Þau hjón, Þórey S. og Ómar Þór Eyjólfsson, höfðu íhugað að eignast sumarbústað á Suðurlandi en vangaveltur með húsgögnin leiddu þau að lítilli íbúð á Flúðum.
Engu líkara er en að húsgögnunum hafi beinlínis verið ætlaður staður þarna, svo vel fara þau í stofunni.
Margt og mikið hefur verið skrifað um Einar Jónsson myndhöggvara og verk hans. Hvergi er hins vegar stafkrók að finna um þessa einstöku stássgripi – fyrr en í bókinni Trélistalífi sem út kom snemma á aðventunni 2024. Þórey S. var svo vinsamleg að leyfa þá umfjöllun og mikil þökk sé henni fyrir það.
Comentarios