top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

Sigga á Grund í Trélistalífi

„Ég á eftir að fletta þessari oft, lesa og skoða,“ sagði Sigga á Grund í Flóa, Sigríður Jóna Kristjánsdóttir skurðlistakona, þegar hún fékk afhent eintak af Trélistalífi á dögunum. Hún var strax til í að vera með í bókinni þegar erindið var borið upp sumarið 2024. Heiður fyrir útgáfuna að geta helgað henni þar kafla.


Sigga er fyrir löngu orðin listræn goðsögn í lifanda lífi. Eftir hana liggja ótal útskornir munir í tré og horn, reyndar miklu fleiri en tölu verður nokkru sinni á komið.

Hún er enn að og gefur ekkert eftir. Íslenska lýðveldið stendur á áttræðu og það gerir líka Sigga á Grund. Hún er einungis sjónarmun eldri.


  • Afi Siggu í föðurætt, Jón Gestsson, bóndi og völundur í Villingaholti, fékk hina íslensku fálkaorðu 3. júní 1944 frá Sveini Björnssyni, fyrsta og eina ríkisstjóra Íslands. Sigga var þá fjögurra daga gömul. Fáeinum dögum síðar var íslenskt lýðveldi stofnað og Sveinn kjörinn fyrsti forseti þess. Jón lést 30. janúar 1945 og Sigga var skírð við kistu afa síns þar sem hún stóð uppi í smíðahúsinu í Villingaholti.


  • Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sæmdi Siggu riddarakrossi fálkaorðunnar á nýársdag 2010 „fyrir framlag til þjóðlegrar listar.“


Víst er hann Kóngur klár

Sigga sýndi mér gríp sem kominn var fullkláraður af vinnuborðinu inn í stofuskáp og beið þar eftir að verkbeiðendur, væntanlegir eigendur, vitjuðu hans. Hún vann við hrútinn Kóng í þrjá mánuði og nú er þessi glæsilega en skammlífa skepna kominn á merktan fótstall. Og það er með Kóng eins og önnur dýr, sem til verða í vinnustofunni á Grund, þau eru svo lifandi að það kæmi ekki á óvart að þau tækju upp á því að jarma, gelta, málma eða hneggja framan í gestinn.


Margir halda að augu dýra Siggu séu úr gleri, aðkeypt og sett á sinn stað. Svo er nú aldeilis ekki. Augun eru hluti af útskurðarverkunum og síðan máluð. Þau eru lyginni líkust eins og ótalt margt fleira sem úr til verður á Grund.


Í vinnustofunni sýndi Sigga annan listagrip sem hún er komin með nær verklokum. Þetta er horn sem sýnilega er erlent að uppruna. Henni var falið að ljúka við að grafa munstur á hornið og lagfæra skemmda skreytingu á enda þess. Hvoru tveggja hefur hún lokið við og þá er bara eftir að pússa verkið og útskrifa það.


Nýkomin í heiðurslaunaflokk Alþingis

Sigga á Grund sótti fimmtán sinnum um starfslaun listamanna og var hafnað fjórtán sinnum. Eina jákvæða svarið fékkst fyrir nær þremur áratugum, nánar til tekið 1995. Þá skráði hún sig í fjögurra ára nám í enskan listaskóla, City and Guilds of London Art School. Lærimeistarar þar á bæ komust strax að því að hún gat engu bætt við þekkingu sína og reynslu á fyrstu tveimur námsárunum en töldu hana eiga erindi á eitt námskeið á þriðja ári. Svo sneri Sigga sér að lokaverkefninu og útskrifaðist úr fjögurra ára námi eftir einn vetur!

Starfaði svo um hríð á vinnustofu eins kennara síns í skólanum, Stephens Slack. Sá var þekktur og virtur útskurðarmeistari.


Alþingi samþykkti skömmu fyrir þingrof og stjórnarslit 2024 að Sigga fengi heiðurslaun listamanna. Og þó fyrr hefði verið.


  • Sigga á Grund er fyrsti heiðursborgari Flóahrepps og fékk fallega unnið verk og heiðursskjal til staðfestingar nafnbótinni í mannfagnaði í Hóteli Vatnsholti í Flóa 30. maí 2024 í tilefni áttræðisafmælis síns. Meðal gesta var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

  • Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði Siggu og skoðaði verk hennar á samkomu í Tré og list galleríi 7. september 2022. Hún gaf honum að skilnaði spæni tvo og hafði grafið nöfn forsetahjónanna, Guðna Th. og Elizu Reid, á sköftin.


Bókin Trélistalíf fæst hjá höfundi, atli@sysl.is,

og í Bókakaffinu í Ármúla í Reykjavík og á Selfossi.



Sigga fletti strax bókinni frá upphafi til enda, stoppaði oft og stúderaði viðinn í útskurðarverkum á ljósmyndunum (sem eru alls um 260!). Svo spáði hún í hver eða hverjir hefðu haft listræn áhrif á útskurðarfólkið. Það var ekki auðvelt að ná sambandi við Siggu á fyrsta korteri heimsóknar. Trélistalíf átti hug hennar allan!
Sigga fletti strax bókinni frá upphafi til enda, stoppaði oft og stúderaði viðinn í útskurðarverkum á ljósmyndunum (sem eru alls um 260!). Svo spáði hún í hver eða hverjir hefðu haft listræn áhrif á útskurðarfólkið. Það var ekki auðvelt að ná sambandi við Siggu á fyrsta korteri heimsóknar. Trélistalíf átti hug hennar allan!



 
 
 

留言


bottom of page